Velkomin á Njáluvefinn

Velkomin á Njáluvefinn

Njála er sennilega frægasta Íslendingasagan en hún er líka ein sú lengsta og flóknasta. Fjölmargar persónur koma við sögu, bæði góðar og vondar, eins og gengur og gerist. Í sögunni eru hugrakkar hetjur sem leggja lífið að veði til að verja sæmd sína og lenda fyrir vikið í ótal deilum og bardögum. Þar eru líka blóðheitar konur og ráðagóðir friðsemdarmenn – og brennuvargar en Njálsbrenna er einhver hörmulegasti atburður Íslendingasagnanna.  Í Njálu eru líka langir kaflar sem líta má á sem merkar heimildir um störf Alþingis og kristnitökuna á Þingvöllum.

Njála gerist einkum á suðurlandi en berst líka út fyrir landsteinana. Flestir atburðir Njálu tengjast tveimur bæjum, Hlíðarenda og Bergþórshvoli. Á Hlíðarenda búa Gunnar og Hallgerður ásamt sonum sínum en á Bergþórshvoli búa Njáll og Bergþóra með börnum sínum. Gunnar er aðalpersónan í fyrri hluta Njálu. Hann berst upp á líf og dauða og fellur að lokum með mikilli sæmd. Eftir það fylgjumst við fyrst og fremst með Njáli og sonum hans og þeim vandræðum sem þeir rata í.