Hlíðarendi

Bærinn Hlíðarendi er í Fljótshlíð í Rangárvallasýslu. Þar bjuggu Gunnar og Hallgerður í Njálu en það var afi Gunnars, Baugur Rauðsson, sem nam land í Fljótshlíðinni. Fleira frægt fólk tengist Hlíðarenda, til dæmis fæddist Þorlákur helgi þar en hann var biskup í Skálholti á 12. öld og er eini íslenski dýrlingurinn í kaþólsku kirkjunni. Á 17. öld bjó þar maður sem kallaður var Vísi-Gísli. Hann gerði margar merkilegar tilraunir með kornrækt og matjurtarækt á Hlíðarenda. Nú er timburkirkja á Hlíðarenda en skammt frá henni er lítill hóll sem nefndur er Gunnarshaugur. Enginn veit hins vegar hvort bein Gunnars sé að finna í hólnum.