Njáll á Bergþórshvoli

Njáll á Bergþórshvoli er ein athyglisverðasta söguhetja Íslendingasagnanna. Hann er góður maður, vitur, hógvær og réttsýnn. Hann er snjall lögmaður og stálminnugur. Eitt er áberandi í útliti Njáls og það er að hann er alveg skegglaus sem þótti heldur hallærislegt á víkingaöld. Njáli er strítt á þessu og kallaður karl hinn skegglausi. Njáll ber ekki vopn og tekur ekki þátt í bardögum. Hann er friðarsinni og vill að menn sættist í stað þess að berjast. En örlög Njáls eru grimm. Hann brennur inni á Bergþórshvoli ásamt fjölskyldu sinni í einhverri grimmilegustu aðför Íslendingasagnanna.