Hallgerður langbrók

Hallgerður langbrók er ein þekktasta kvenhetja Íslendingasagnanna. Hún er glæsileg kona, hávaxin og fögur en ákaflega skapmikil og hefnigjörn. Hallgerður er  voldug og virðuleg húsmóðir á Hlíðarenda en stendur stöðugt í einhverjum deilum. Merkastar eru deilur hennar við Bergþóru, konu Njáls sem verða mjög blóðugar. Saga Hallgerðar er mun lengri en saga Gunnars á Hlíðarenda því þegar þau kynnast hefur Hallgerður þegar verið gift tvisvar. Bæði hjónaböndin enduðu illa og marga grunar að Hallgerður hafi átt þátt í dauða að minnsta kosti annars eiginmannanna. Hallgerður lifir líka lengi eftir fall Gunnars og flækist inn í fleiri deilur og átök.