Skarphéðinn Njálsson

Skarphéðinn Njálsson er sterkur og öflugur bardagamaður en hann er ekki jákvæð og eftirsóknarverð hetja eins og Gunnar á Hlíðarenda. Skarphéðinn er myrkari en Gunnar,  þungur í skapi og kaldhæðinn og glottir gjarnan við tönn. Vopn hans er ekta víkingavopn, öxi sem hann kallar Rimmugýgi (bardagatröll). Skarphéðinn vinnur illvirki þegar hann stjórnar drápinu á stjúpbróður sínum og kallar með því skelfilega hefnd yfir fjölskyldu sína. Örlög hans eru grimm og hann brennur inni í Njálsbrennu.