Bergþórshvoll

Bærinn Bergþórshvoll er í Vestur-Landeyjum, ekki langt frá Hlíðarenda. Á Bergþórshvoli bjuggu Njáll og Bergþóra ásamt börnum sínum. Bærinn stendur á lágri hæð en umhverfis hann eru ýmis kennileiti sem bera nöfn sem vísa í Njálu, svo sem Floshóll og Káratjörn. Samkvæmt Njálu var Bergþórshvoll brenndur í kringum árið 1010. Leitað hefur verið að menjum um brunann en þótt fundist hafi fornar, sviðnar spýtur hefur ekki tekist að rekja þær svona langt aftur. Það gætu auðvitað hafa staðið bæir síðar á Bergþórshvoli sem hafa brunnið. Einu sinni fundu menn sérkennilegt hvítt efni við svona leit og töldu það vera 800 ára gamalt skyr frá Bergþóru.