Heiður og hefnd

Heiðurinn eða sæmdin var það verðmætasta sem víkingarnir áttu. Heiðurinn sýndi nefnilega stöðu þeirra í samfélaginu. Menn gátu aukið  heiður sinn með því að berjast og sigra, eignast mikið fé eða vingast við fræga og volduga menn eins og konunga í útlöndum. Þar sem heiðurinn var svona mikils virði voru menn óttalega viðkvæmir fyrir því hvað öðrum fannst um þá. Karlmennirnir ögruðu hver öðrum til að sýna hvað þeir voru sterkir og voldugir og voru alltaf tilbúnir að svara fyrir sig ef einhver ögraði þeim. Þess vegna hefndu þeir sín grimmilega fyrir hvaðeina sem þeim fannst skerða heiður sinn, hvort sem það voru árásir eða móðganir á borð við ljótar vísur. Hefndin var svo mikilvæg að við getum sagt að það hafi ríkt hefndarskylda. Konurnar hugsuðu ekki síður um heiðurinn og sendu karlana í kringum sig í hrikalegar hefndarferðir ef þeim fannst þurfa að rétta heiður fjölskyldunnar. Sumir myndu segja að menn hafi verið hörundsárir og uppstökkir á þessum tíma en aðrir segja að þessi viðbrögð hafi verið nauðsynleg til að halda samfélaginu í föstum skorðum.