Hefndarskylda

Á fyrstu árum Íslandsbyggðar var ekkert yfirvald í landinu, enginn konungur eða forseti og engin lögregla. Það voru heldur engir dómstólar fyrr en 930 þegar Alþingi var stofnað. Menn urðu að verja sig sjálfir og sjá sjálfir um að ljúka deilum. Í rauninni ríkti hefndarskylda á Íslandi.  Það þýðir að menn urðu að hefna sín ef eitthvað var gert á þeirra hlut, hvort sem það var ráðist á þá, rænt frá þeim eða þeir voru móðgaðir. Menn hefndu sín með því að koma að minnsta kosti jafn illa fram við andstæðing sinn og jafnvel grimmilegar. Stundum gengu menn mjög langt til að ná fram hefndum, riðu milli landshluta og réðust á menn sem voru fjarskyldir óvininum. Með því að hefna sín svona hroðalega vörðu menn heiður sinn og þar með stöðu sína í samfélaginu. Hefndarskyldan og heiðurinn eru óaðskiljanlegur hluti af veröld víkinganna og þar með Íslendingasögunum.