Fyrirgefning

Deilum víkinganna lauk aldrei með því að annar aðilinn segði ”fyrirgefðu, ég lofa að gera þetta aldrei aftur.” Það hefði aldeilis ekki aukið heiður hans. Það hefði hins vegar aukið heiður kristins manns en ekki víkings því fyrirgefningin er kristið hugtak. Það er samt ekki rétt að segja að hefndin tilheyri bara heimi heiðninnar og allt hafi breyst við kristnitökuna. Við vitum að á Sturlungaöld, þegar Íslendingar höfðu verið kristnir í rúm 200 ár, voru menn enn að berjast fyrir sæmd sinni, hefna sín og drepa nágranna sína. Á þessum kristna tíma gerðust jafnhræðilegir atburðir og sagt er frá í Íslendingasögunum, menn börðust, voru höggnir til bana og kveikt var í bæjum fullum af fólki. Um það má lesa í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar sem skrifuð var á 13. öld. Það var í raun ekki fyrr en árið 1281 að blóðhefnd (dráp í hefndarskyni) var bönnuð með lögum á Íslandi. Svo má heldur ekki gleyma því að auðvitað kristnaðist heil þjóð ekki á örskotsstundu, hinn gamli siður lifði lengi vel, enda mátti blóta (heiðra fornu goðin) þegar enginn sá til.