Hver á að hefna?

Þegar einhver var veginn (drepinn) varð sá karlmaður sem skyldastur honum var að hefna hans. Það gat verið sonur hans, bróðir eða faðir, jafnvel frændi eða fóstbróðir. Konur og börn hefndu yfirleitt ekki en þó eru dæmi um það í Íslendingasögunum. Hlutverk kvenna var frekar að hvetja til hefnda. Í Íslendingasögunum er konunum mjög umhugað um sæmd sína og ekki síður sæmd fjölskyldu sinnar. Stundum eru karlmennirnir tregir til að hefna og þá ögra konurnar þeim þar til þeir geta ekki lengur setið á sér. Það er kallað að eggja til hefnda. Margar senur þar sem konur eggja til hefnda í Íslendingasögunum eru mjög dramatískar og glæsilegar. Konurnar beita ýmsum brögðum til að skora á karlana, þær varðveita til dæmis gjarnan eitthvað sem minnir á hinn vegna. Gott dæmi um það er í Njálu þar sem Hildigunnur varðveitir blóðuga skikkjuna sem Höskuldur hvítanesgoði var með þegar hann var veginn.