Skipulag samfélagsins

Landnámsmennirnir sem settust að á Íslandi voru afar uppteknir fyrstu árin. Þeir þurftu að reisa sér bæi og koma skepnunum sínum á beit, rækta land sitt og koma lagi á búskapinn. Mikill tími fór líka í alls kyns átök, bardaga og deilur, ekki síst um landamæri og jarðir. Og þar sem ekkert yfirvald var í landinu urðu menn að gera út um öll deilumál sjálfir. Smátt og smátt varð mönnum ljóst að þeir yrðu að hafa einhverja stjórn á samfélaginu, það yrði að setja lög og finna leiðir til að dæma þá sem brytu lögin.