Goðaveldi – Þjóðveldi

Alþingi starfaði með þessum hætti frá 930-1262 en þá gerðust Íslendingar þegnar Noregskonungs. Oft er talað um þetta tímabil sem goðaveldi þar sem vald goðanna var svo mikið. Tímabilið er líka nefnt þjóðveldi því þjóðin hafði talsvert vald. Bændur gátu valið sér goða og skipt um goða ef þeim líkaði ekki við goðann sinn. Goðarnir þurftu því að standa sig til að halda völdum. Við getum líka talað um karlaveldi því goðarnir voru allir karlar og auk þess voru það einungis sjálfstæðir bændur, sem allir voru karlar, sem gátu valið sér goða. Konur, börn, vinnufólk og þrælar þurftu að fylgja sama goða og heimilisfaðirinn. Það var í raun ekki fyrr en í lok 19. aldar, jafnvel á 20. öld, að konur og fátækir karlar fengu að hafa eitthvað að segja um samfélagið.