Stéttaskipting

Á víkingaöld var skýr stéttaskipting á Íslandi. Bændur sem áttu land þóttu merkilegastir og þeir stjórnuðu í raun samfélaginu. Eftir því sem bændurnir voru ríkari, því fleiri vinnumenn og þræla gátu þeir haft á bænum sínum. Allra ríkustu og voldugustu bændahöfðingjarnir kölluðust Goðar. Fátækir bændur þurftu að leigja land af ríku bændunum og kölluðust leiguliðar. Staða þeirra var mun veikari og þeir nutu minni virðingar. Vinnufólkið naut enn minni virðingar en var þó frjálst. Lægst sett voru þrælar og ambáttir sem voru eign bændanna og höfðu ekki frelsi. Í Íslendingasögunum kemur skýrt fram hversu mikill munur var á stöðu fólks. Það sést best á því að hefndarskyldan hvíldi þungt á bændum og fjölskyldum þeirra en það var alls ekki víst að einhver myndi hefna vinnumanns (húskarls), hvað þá þræls.

Goðar

Valdamestu bændurnir á Íslandi kölluðust goðar og yfirráðasvæði þeirra goðorð. Hægt var að eignast goðorð með því að kaupa það, erfa það eða þiggja það að gjöf. Allir bændur urðu að fylgja einhverjum goða og þeir gátu valið hann sjálfir og skipt um goða ef þeir voru ósáttir við hann. Goðarnir urðu að vernda bændur sína, gæta réttar þeirra og varðveita friðinn í héraðinu. Goðarnir voru voldugustu og oftast ríkustu mennirnir í hverri sveit og í raun skiptu þeir landinu á milli sín. Þegar Alþingi var stofnað (930) var landinu skipt í 36 goðorð eða yfirráðasvæði. 35 árum síðar var landinu skipt í fjórðunga og þá var goðunum fjölgað um þrjá eða í 39. Upp frá því voru 9 goðar í öllum fjórðungum nema Norðlendingafjórðungi sem var stærstur og fjölmennastur. Þar voru 12 goðar.

Margir frægir goðar koma við sögu í Íslendingasögunum og sumir tengja saman margar sögur. Einn þeirra er Snorri goði, vinur Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu. Hann birtist líka í Njálu og Gísla sögu Súrssonar og gegnir lykilhlutverki í Eyrbyggju.

Þrælar

Compact Audio Player Error! The mp3 file URL that you entered in the "fileurl" parameter looks to be invalid. Please enter a valid URL of the audio file.

Þrælahald var leyfilegt og algengt á víkingaöld. Það merkir að ríkt fólk gat keypt sér annað fólk og látið það vinna fyrir sig. Bæði konur og karlar voru í þrældómi, konurnar kölluðust þá ambáttir en karlarnir þrælar. Þrælar og ambáttir voru ekki frjáls, þau máttu ekki yfirgefa eigendur sína og þurftu að sætta sig við ákvarðanir þeirra. Eigendurnir gátu selt þau eða jafnvel drepið ef þeim sýndist. Þrælar og ambáttir gátu þó öðlast frelsi með því að kaupa það eða þiggja að gjöf. Þá kölluðust þau leysingjar. Þrælar og ambáttir unnu oft mjög erfiða vinnu og fengu engin laun fyrir. Þau höfðu lítil réttindi og ef þau eignuðust börn urðu börnin sjálfkrafa þrælar við fæðingu. Sumir húsbændur eignuðust börn með ambátt sinni og formlega séð áttu ambáttarbörn að verða þrælar. Það var þó ekki alltaf þannig eins og sagan af Ólafi pá, syni ambáttarinnar Melkorku í Laxdælu, sýnir. Hann varð mikill höfðingi og fékk jafnmikinn arf eftir föður sinn og bræður hans. Melkorka er frægasta ambáttin í Íslendingasögunum en hún reyndist vera konungsdóttir frá Írlandi. Hún var fimmtán ára þegar henni var rænt.