Gauksstaðaskipið

Í lok 19. aldar fannst heillegt víkingaskip í Gauksstað í Noregi. Talið er að það hafi verið smíðað árið 870 eða um það leyti sem norskir víkingar byrjuðu að sigla til Íslands. Gauksstaðaskipið gefur ómetanlegar upplýsingar um hvernig langskip víkinganna litu út og hvað var um borð í þeim. Margar merkar fornminjar fundust í Gauksstaðaskipinu. Um borð voru 32 árar, þrír litlir róðrarbátar, átta rekkjur eða rúm, útskorinn sleði, tafl, drykkjarhorn, kertastjakar, austurtrog (ílát til að ausa með), akkeri, róðrarkistur og 64 skildir sem málaðir voru svartir og gulir á víxl. Auk þess fundust beinagrindur af hestum, hundum og páfugli, að ógleymdum ríka höfðingjanum sem hafði verið heygður í skipinu.

Þegar Gauksstaðaskipið var á siglingu voru að minnsta kosti 34 menn um borð, 32 ræðarar og 2 yfirmenn eða skipstjórnendur. Ef mikið lá við voru 70 manns um borð, 64 ræðarar (32 menn réru hverju sinni meðan 32 hvíldu sig) og 6 yfirmenn. Tveir ræðarar deildu hverri róðrarkistu. Kisturnar voru sæti þegar róið var en ofan í þeim geymdu þeir dótið sitt.  Stefni skipsins var mjög hátt því þannig sáust víkingaskipin úr mikilli fjarlægð. Auk þess veitti stefnið vörn gegn háum öldum.  Stefnið á víkingaskipum var oft skreytt með útskornum dreka en þá kölluðust skipin drekar eða ormar (ormur merkti dreki á víkingaöld). Flottustu drekarnir voru steindir sem merkir málaðir. Gauksstaðaskipið virðist hafa verið málað blátt og gult.

Gauksstaðaskipið var lagfært og endursmíðað og er nú á safni í Noregi. Nákvæm eftirmynd þess er á víkingasafninu í Reykjanesbæ og kallast Íslendingur.