Víkingaskip

Víkingarnir voru snjallir skipasmiðir og hönnuðu skip sem þoldu langa siglingu. Víkingaskipin höfðu eitt hátt mastur með einu stóru segli. Í botni þeirra var kjölfesta (þungir hlutir eins og grjót) sem gerði þau stöðug og kom í veg fyrir að þeim hvolfdi á siglingu. Kjölfestan vóg nefnilega upp á móti þyngd mastursins og seglsins. Auk þess höfðu víkingaskipin kjöl sem gaf þeim stefnufestu (kom í veg fyrir að þau ræki til hliðar á siglingu) og auðveldaði víkingunum að draga skipin á land og sjósetja þau.

Til voru tvær gerðir af víkingaskipum, langskip og  knerrir. Langskipin voru mjó og hraðskreið. Þau voru mest notuð til siglinga á innhöfum, fjörðum og ám enda ristu þau grunnt (náðu ekki djúpt ofan í vatnið). Langskipin voru notuð í hernaði enda var hægt að sigla þeim mjög nærri ströndinni og jafnvel stökkva úr þeim eða vaða í land. Knerrirnir voru hlutfallslega breiðari, dýpri og styttri og gátu borið mikinn þunga. Þess vegna voru þeir góðir til úthafssiglinga eins og milli Noregs og Íslands. Víkingarnir þurftu nefnilega að taka ýmislegt með sér þegar þeir settust að í nýju landi. Fjöldi manna var á hverjum knerri, karlar, konur og börn, vinnufólk og þrælar. Síðan þurfti pláss fyrir farangurinn; föt, vopn, verkfæri, mat og lifandi dýr.