Leikur með munnlega geymd

Íslendingasögurnar eru sagðar hafa varðveist í munnlegri geymd áður en þær voru skráðar á bók. Það þýðir að fólk kunni sögurnar og sagði þær, hver á sinn hátt. Þannig lærðu nýjar kynslóðir sögurnar og héldu áfram að segja þær.

Gaman er að gera tilraun í bekknum með hvernig sögur varðveitast í munnlegri geymd. Það er gott að byrja á léttri upphitun með „hvísleiknum“ þar sem allir sitja í hring og láta orð eða setningu ganga hringinn með hvísli. Komust skilaboðin óbrengluð frá þeim sem byrjaði leikinn að síðasta manni?

Byrjið síðan á að velja sögu sem allir þekkja, til dæmis rauðhettu eða raunverulegan atburð sem gerðist  í skólanum. Síðan eru þrír eða fleiri nemendur látnir fara fram. Þeir eiga svo að koma, einn í einu inn og segja þessa sögu.

Af hverju haldið þið að þeir segi ekki nákvæmlega eins frá? Segir einhver alveg rétt frá? Segja stelpur og strákar eins frá?

Veltið líka fyrir ykkur hvort hægt sé að geyma sögur lengi í munnlegri geymd þannig að þær gangi  mann fram af manni án þess að þær breytist? Er kannski allt í lagi að þær  breytist? Gætu þær orðið betri?