Uppruni víkinga

Víkingarnir komu frá Norðurlöndunum og þeir kölluðu sig sjálfir norræna eða danska sem merkti norrænn. Sumir víkingar eru mjög frægir enn í dag, sérstaklega þeir sem könnuðu ný lönd. Þess vegna er stundum deilt um það hvaðan þeir í raun og veru voru. Eiríkur rauði var fæddur í Noregi en flutti ungur til Íslands. Þaðan sigldi hann og fann Grænland. Sonur hans, Leifur heppni, var fæddur á Íslandi og sigldi þaðan til Ameríku. Venjan hérlendis hefur verið að kalla þá báða Íslendinga. Venjulega segjum við líka að Leifur hafi fundið Ameríku þótt Grænland sé í heimsálfunni Ameríku og pabbi hans hafi komið þangað á undan honum. Svo má heldur ekki gleyma því að fjöldinn allur af indíánum bjó í Ameríku þegar Leifur steig þar á land. Réttast væri að segja að Leifur hafi fyrstur Evrópumanna komið til meginlands Ameríku. Hér er vefur um Leif heppna og ferðir hans.