Tungumál

Víkingarnir komu frá Norðurlöndunum og tungumálið sem þeir töluðu kallast norræna. Það mál var talað alls staðar þar sem víkingar réðu ríkjum, í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, á yfirráðasvæðum víkinga á Bretlandseyjum, í Færeyjum, sums staðar á Grænlandi og auðvitað á Íslandi. Stundum er talað um danska tungu í gömlum sögum og er þá átt við norrænuna. Víkingarnir skildu hver annan vel þótt þeir byggju ekki í sama landinu. Það var ekki fyrr en eftir lok víkingaaldar að norrænan þróaðist í ólíkar áttir og mismunandi mállýskur urðu til sem síðar urðu að aðskildum tungumálum; íslensku, færeysku, norsku, sænsku og dönsku. Ekki eru til skriflegar heimildir frá víkingaöld en rúnaáletranir gefa mikilvægar vísbendingar um hvernig norrænan var. Hún var í raun afar lík nútíma-íslensku. Við vitum þó að framburðurinn var býsna ólíkur því sem við heyrum nú til dags á Íslandi. Víkinga-norrænan hafði miklu fleiri sérhljóða en nútíma-íslenskan og líka ýmis nefhljóð sem horfin eru úr málinu.

Rúnir

Ritmálið sem víkingarnir notuðu var kallað rúnaletur eða rúnir. Það var ekki eins fullkomið ritmál og stafrófið sem við notum núna enda voru bara 16 rúnir í rúnastafrófinu. Vaninn er að skrifa rúnastafrófið í þremur runum: fuþark – hnias – tblmr. Það ber nafn fyrstu stafarununnar og er því kallað fuþark. Rúnirnar voru gerðar þannig að auðvelt væri að rista þær í stein eða skera í tré því menn voru ekki farnir að skrifa með penna. Ekki eru varðveittar neinar sögur ritaðar með rúnaletri. Rúnirnar virðast fyrst og fremst hafa verið notaðar til að merkja hluti eða fremja galdur. Menn ristu líka rúnir á stóra bautasteina sem reistir voru til minningar um látna menn.

Víkingarnir töldu rúnirnar vera máttugar og sögðu að þær hefðu bæði galdramátt og lækningamátt. Sumar rúnir báru töfranöfn sem nú eru orðin að kvenmannsnöfnum svo sem hugrún sem var notuð til að efla vit og sigrún sem var notuð til að vinna sigur í orrustu. Í Eglu eru mörg dæmi um galdramátt rúna. Egill Skalla-Grímsson notar til dæmis rúnir til að eyðileggja eitur sem reynt er að láta hann drekka. Rúnir sem eyðilögðu eitraðan drykk kölluðust ölrúnir en ölrún er enn eitt rúnaheitið sem núna er kvenmannsnafn. Í Eglu kemur líka fram að víkingarnir notuðu rúnir til lækninga – eða eins konar töfralækninga. Sá sem kunni að galdra með rúnum virðist því líka hafa kunnað að lækna með þeim.

Stóri steinninn hér er eftirgerð af frægum bautasteini víkinganna á Gotlandi.