1. Forlagatrú kemur víða við sögu í Íslendingasögunum. Með forlagatrú er átt við að menn trúðu því að örlög manna væru ráðin fyrir fram. Sumir væru gæfumenn og stæðu alltaf uppi sem sigurvegarar en aðrir væru ógæfumenn sem myndu aldrei ná að sigra.
Hvað finnst ykkur um þessa hugmynd, að mönnum séu sköpuð örlög sem ekki er hægt að breyta?
2. Spádómar koma víða við sögu í Íslendingasögunum. Stundum lýsa fróðir menn því hvað muni seinna koma fyrir, stundum sér fólk fyrirboða svo sem blóðuga gripi eða dreymir draum sem sýna framtíðina.
Haldið þið að hægt sé að spá fyrir um framtíðina?
Hvað ræður því hvernig framtíðin verður?
Trúir fólk almennt á spádóma? – til dæmis stjörnuspár?
3. Konur bera ekki vopn í Íslendingasögunum en þær eggja oft til hefnda, það er skora á karlmenn að ráðast á aðra karla með vopnum. Veltið þessum hlutverkum kynjanna fyrir ykkur. Eru konurnar jafnsekar og karlarnir þegar svona gerist? Hefðu konurnar getað komið í veg fyrir dráp með því að segja ekkert? Hefðu karlarnir átt að neita því að berjast? Hver ber ábyrgðina á bardögum sem verða þegar kona eggjar karl til að hefna?
Hvernig er þetta hjá ykkur? Er sá sem skipar einhverjum að lemja einhvern
jafnsekur og sá sem raunverulega slæst?
4. Hvernig var að vera stelpa á víkingaöld? Hvað gerðu stelpur, hvað lærðu þær, hvaða tækifæri höfðu þær til að velja sér framtíð? Gátu stelpur gert hvað sem þær vildu? Gátu konur til dæmis starfað við hvað sem er og gifst hverjum sem þær vildu?
5. Hvernig var að vera strákur á víkingaöld? Hvað gerðu strákar, hvað lærðu þeir, hvaða tækifæri höfðu þeir til að velja sér framtíð? Gátu strákar gert hvað sem þeir vildu? Gátu karlar til dæmis starfað við hvað sem er og kvænst hvaða konu sem þeir vildu?
6. Hefur eitthvað breyst? Hvernig er staða stúlkna og drengja núna miðað við á víkingatímanum? En karla og kvenna? Geta allir karlar og allar konur valið sér það starf sem þau vilja? Geta allir karlar og allar konur gifst þeim sem þau vilja? Er þetta eins alls staðar í heiminum? Hvað vitið þið um stöðu stelpna og stráka og kvenna og karla í fjarlægum löndum?
7. Orðið hetja er lykilorð í Íslendingasögunum. Sögurhetjurnar vilja helst af öllu vera hetjur. Um hvern er orðið hetja helst notað í sögunum? Eru það karlar eða konur?
Hvað einkennir hetjur núna? Um hverja er orðið hetja notað núna? Getur hetja verið
bæði karl og kona og á hvaða aldri sem er? (Hugsið um venjulegt fólk en ekki persónur úr bíómynd). Berið nútímahetjurnar saman við hetjur Íslendingasagnanna.
Hafið þið gert eitthvað hetjulegt?
Þekkið þið einhverjar hetjur?
8. Gestrisni skiptir miklu máli í Íslendingasögunum og allir vilja taka vel á móti gestum og bjóða þeim að dvelja langan tíma. Hvernig er tekið á móti gestum núna? Hefur gestrisnin breyst? Gæti eitthvað hafa valdið því að fólk varð að dvelja lengi þegar það fór í heimsókn á víkingaöld? Hvernig haldið þið til dæmis að samgöngur hafi verið? Hvernig voru vegirnir og hvers konar farartæki notuðu menn?