Verkefni úr köflum – Egla

Rifjaðu upp söguna um leið og þú svarar þessum spurningum skriflega. Þær reyna á lesskilning, það er hversu vel þú skildir textann sem þú last. Auðvitað reyna þær líka á minnið – og færni þína í að leita að upplýsingum því þú skalt fletta því upp í bókinni sem þú manst ekki. Ef þú svarar spurningum úr hverjum kafla vel og vandlega þá skilurðu söguna í heild betur.

 
 

1. kafli

Frá Noregi til Íslands

Efni

  1. Hvað hétu synir Kveld-Úlfs?
  2. Hver var konungur í Noregi þegar sagan hófst?
  3. Hvað heit hafði Haraldur konungur strengt?
  4. Hvers vegna reiddist Haraldur Þórólfi?
  5. Hvar nam Skalla-Grímur land?

Sköpun

1. Búið til nútímaofurhetju úr Kveld-Úlfi eða Skalla-Grími. Hvernig lítur berserkurinn út? Hvað heitir hann og hvernig nýtast hæfilekarnir honum? (Skoðið lýsingu á berserkjum á bls. 10).

2. Teiknið kápuna á fyrsta hasarblaðinu um ofurhetjuna.

3. Hannið auglýsingaspjald fyrir fyrstu myndina um ofurhetjuna. Er þetta teiknimynd eða leikin mynd?

Umræður

1. Kveld-Úlfur og Skalla-Grímur eru berserkir. Það merkir að þeir eru gríðaröflugir bardagamenn og mun sterkari en venjulegir menn. Berserkir eru hamrammir sem merkir að þeir eru taldir breytast í úlf eða björn þegar þeir berjast. Skoðið lýsinguna á berserkjum á bls. 10. Sjáið þið einhver líkindi með berserkjum og ofurhetjum nútímans?

2. Í kaflanum bera margir menn viðurnefni eins og Háldán svarti, Haraldur lúfa eða Haraldur hárfagri, Kveld-Úlfur og Skalla-Grímur. Hvað finnst ykkur um svona nafngiftir? Eru menn uppnefndir svona nú til dags?

 

2. kafli

Egill og Þórólfur

Efni

  1. Hvað hét eiginkona Skalla-Gríms?
  2. Hvað hétu synir Skalla-Gríms og Beru?
  3. Hverni er Agli litla lýst?
  4. Hver bauð til veislu á Álftanesi?
  5. Hver tók við völdum í Noregi á eftir Haraldi hárfagra?

Sköpun

Þórólfur Skalla-Grímsson fer í hernað með Eiríki blóðöxi og ber merki hans. Það þótti mikill heiður að fá að bera merki konungsins, en merkið var í raun fáni konungsins og sýndi að þarna var liði hans á ferð. Ekki er vitað hvernig merki Eiríks leit út en það gæti hafa tengst viðurnefni hans og það hefur örugglega átt að skelfa óvini hans.

Hvernig haldið þið að merki Eiríks blóðaxar hafi litið út? Búið til merki (fána) fyrir konunginn. Munið að víkingarnir voru mjög hrifnir af sterkum litum.

Umræður

1. Sagt er að Egill hafi verið illur viðureignar er hann var í leikjum með öðrum ungmennum. Það merkir að hann hafi verið erfiður, jafnvel ofbeldisfullur, þegar hann lék sér við önnur börn. Haldið þið að þessi lýsing skipti máli fyrir söguna? Sést kannski strax hvernig maður Egill verður?

2. Hvernig haldið þið að Egill og hin börnin hafi leikið sér? Skoðið lýsinguna á barnaleikjum á bls. 15. Eru þetta svipaðir leikir og þið leikið ykkur í? Hver er munurinn á ykkar leikjum og leikjum víkingabarna?

3. Kuðungarnir og andareggin sem Egill fær frá afa sínum eru leikföngin hans. Hvernig haldið þið að hann hafi leikið sér með þetta? Getið þið ímyndað ykkur eða búið til leiki þar sem notaðir eru kuðungar og andaregg?

4. Þórólfur Skalla-Grímsson er víkingur og siglir til Noregs. Hann verður vinur Eiríks blóðaxar sem er sonur Haralds hárfagra. Haraldi líst illa á vináttu strákanna því hann er enn reiður út í ætt Kveld-Úlfs. Haldið þið að Skalla-Grími lítist vel á að sonur hans sé orðinn vinur sonar Noregskonungs? Hvers vegna eða hvers vegna ekki?

 

3. kafli

Knattleikurinn

Efni

  1. Hver var Þórður Granason?
  2. Hvað var Egill gamall þegar knattleikurinn var háður?
  3. Við hvern átti Egill að leika þegar skipt var í lið?
  4. Hvers vegna reiddist Egill?
  5. Hvernig brugðust foreldrar Egils við þegar þeir fréttu að hann hefði drepið leikfélaga sinn?

Sköpun

1. Knattleikur var mjög vinsæl íþrótt á víkingaöld. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig reglurnar voru eins og þið getið lesið hér á vefnum og á bls. 16 í Eglu. Búið til reglur fyrir leikinn. Þær þurfa að vera nógu góðar til að ókunnugir geti lesið þær og lært leikinn.

2. Á bls. 17 er vísa sem Egill yrkir eftir að hann drepur Grím og móðir hans hefur kallað hann víkingsefni. Margir krakkar kunna þessa vísu og geta sungið hana. Ykkar verkefni er að semja nýtt lag við vísuna. Þið getið notað þau hljóðfæri sem þið viljið – eða engin hljóðfæri, þetta er alveg frjálst. Munið bara að hugsa um textann, lagið þarf að passa efni vísunannar.

Umræður

1. Haldið þið að Egill og Grímur hafi hegðað sér eins og átti að gera í knattleik? Hvað gerist ef engar reglur eru í leikjum eins og knattleik? Hvað myndi gerast ef engar sameiginlegar reglur væru í gildi í Íslandsmótinu í handbolta eða fótbolta núna?

2. Hvað finnst ykkur um aðgerðir Egils þegar hann reiðist? Munið þið eftir einhverjum öðrum söguhetjum sem hegða sér svona sem börn? Hver er munurinn á Agli og öðrum óþekkum sögupersónum eins og til dæmis Emil í Kattholti eða Bart Simpson?

3. Egill er sex ára þegar hann drepur Grím en Þórður vinur hans er orðinn unglingur. Hann er líklega 14 ára. Veltið því fyrir ykkur hvernig Þórður bregst við þegar Egill leitar til hans. Finnst ykkur hann bera einhverja ábyrgð á því að Egill drepur Grím?

4. Skoðið myndirnar á bls. 16-17. Hvers vegna sýnir listamaðurinn ekki ofbeldið eða blóðið? Hvaða tilfinningar vekja myndirnar miðað við textann? Veltið nú fyrir ykkur myndum af ofbeldi í sjónvarpinu út frá þessum myndum, hvort sem það er í teiknimyndum eða í fréttunum. Þarf alltaf að sýna allt nákvæmlega? Hvar á að draga mörkin, hvenær er of mikið sýnt?

5. Hvað finnst ykkur um viðbrögð foreldra Egils? Hvernig myndu foreldrar ykkar bregðast við ef þið ynnuð svona voðaverk? Myndu kannski einhverjir aðrir skipta sér af núna? Hverjir myndu grípa inn í? Hvað yrði gert ef strákur í 1. bekk myndi ráðast með öxi á strák í 6. bekk? Hvað yrði gert við strákinn úr 9. bekk sem lánaði honum öxina?

6. Á þessum tíma báru börn ekki ábyrgð á gjörðum sínum eins og þessi saga sýnir. Þau tilheyrðu ekki heimi hefndarinnar, þar voru bara fullorðnir. Fullorðnir karlmenn áttu að hefna sín ef einhver gerði eitthvað á þeirra hlut en það mátti enginn hefna sín á börnum eða fyrir verknað barna. Þess vegna er Egill ekki í hættu þótt hann hafi drepið mann. Finnst ykkur þetta sanngjarnt? Finnst ykkur að börn eigi að bera ábyrgð á því sem þau gera? Hvað eiga þau að vera gömul þegar þau fara að bera ábyrgð á því sem þau gera? Hvernig er það núna? Berið þið ábyrgð á öllum sem þið gerið?

4. kafli

Egill siglir utan.

Efni

  1. Hvað kom fyrir Þórð, vin Egils?
  2. Hver var Þorgerður brák?
  3. Hvernig dó Þorgerður brák?
  4. Hvernig hefndi Egill sín á föður sínum?
  5. Hvers vegna vildi Þórólfur ekki taka Egil með til Noregs?

Sköpun

1. Þorgerður brák, fóstra Egils, var fjölkunnug en það merkir göldrótt. Teiknaðu hana þannig að hæfileikar hennar sjáist.

2. Hvað myndi saga Þorgerðar heita? Búðu til bókarkápuna með mynd og titli bókarinnar fram á og texta um efni sögunnar aftan á.

3. Hannið minnismerki um Þorgerði brák. Teiknið minnismerkið eða smíðið það í hlutföllunum 1:10 svo að hægt sé að smíða það í fullri stærð. Það þýðir að 1 sentimetri hjá ykkur jafngildir 10 sentimetrum í raun og veru.

Umræður

1. Skap Egils kemur berlega í ljós í þessum kafla. Hann hefnir sín á föður sínum með því að drepa vinnumann hans. Hann hefnir sín líka á bróður sínum með því að höggva á reipin sem héldu skipinu hans svo að það rak í burtu. Hvað finnst ykkur um framkomu Egils? Skiljið þið reiði hans?

2. Ásgerður fóstursystir bræðranna siglir með þeim til Noregs. Þar búa foreldrar hennar sem hún hefur ekki hitt í mörg ár. Ásgerður ólst upp hjá Skalla-Grími og Beru frá því að hún var lítið barn en algengt var á þessum tíma að börn væru send í fóstur. Það merkir að annað fólk en foreldrarnir tók að sér að ala börnin upp. Hvað finnst ykkur um þetta fyrirkomulag? Eru það alltaf foreldrarnir sem ala börn upp núna?

3. Ásgerður er 13 ára þegar hún fer til Noregs og hittir foreldra sína. Hvernig haldið þið að henni líði? Hvað hugsar hún á leiðinni?

5. kafli

Egill vegur vin konungs.

Efni

  1. Hver var Þórir hersir?
  2. Egill eignaðist vin í Noregi, hver var hann?
  3. Arinbjörn átti annan góðan vin, hver var hann?
  4. Hvers vegna fór Egill ekki í brúðkaup Þórólfs og Ásgerðar?
  5. Hvernig tók Atleyjar-Bárður á móti Agli og Ölvi?
  6. Hvaða fínu gestir voru í Atley um kvöldið?
  7. Hvað reyndu Bárður og Gunnhildur að gera við Egil?
  8. Hvers vegna lagði Egill á flótta úr Atley?
  9. Hvernig brást Arinbjörn við þegar hann heyrði af atburðunum?
  10. Hvernig brást konungurinn við?

Sköpun

  1. Rúnir gátu menn notað bæði til að skrifa og galdra. Skoðið rúnastafrófið á bls. 21 í Eglu. Þið getið notað það sem leyniletur því það eru ekki margir sem kunna rúnir nú til dags. Prófið að skrifa skilaboð til einhvers í bekknum á rúnaletri. Það eru færri stafir í rúnastafrófinu en í okkar stafrófi núna svo þið verðið til dæmis að nota rúnina a fyrir bæði a og á og rúnina u fyrir bæði u og ú.
  2. Egill verst eitri Gunnhildar og Bárðar með því að rista rúnir á drykkjarhornið og smyrja það eð blóði meðan hann kveður vísu. Við þetta springur hornið og eiturdrykkurinn lekur niður. Hvað haldið þið að Egill hafi rist á hornið? Hvernig gæti vísan hafa hljómað? Yrkjið galdravísu til að verjast eitri og skrifið hana með rúnum.

Umræður

  1. Hvað finnst ykkur um viðbrögð Egils þegar hann fær bara skyr að drekka?
  2. Á víkingaöld þótti mörgum dónalegt að bjóða karlmönnum annað en öl að drekka. Hvað finnst ykkur um móttökur Atleyjar-Bárðar þegar þið vitið þetta?
  3. Í kaflanum koma fyrir gömul orð yfir vopn, kesja sem merkir spjót og buklari sem merkir skjöldur. Í Eglu eru mörg orð yfir vopn, sérstaklega sverð. Hvers vegna haldið þið að menn hafi notað fleiri orð um þessa hluti á víkingaöld en núna?

6. kafli

Ránsferð á Kúrlandi.

Efni

  1. Hvar herjuðu Egill og Þórólfur?
  2. Hvað vildi bóndinn á Kúrlandi gera við víkingana?
  3. Hvers vegna vildi sonur bóndans bíða með að drepa víkingana?
  4. Hvaða grip tók Egill með sér og hvað var í honum?
  5. Hvernig brást Gunnhildur drottning við þegar hún frétti að bræðurnir Þórólfur og Egill væru komnir til Noregs?

Sköpun

Rafið sem víkingarnir fengu á Kúrlandi var mikið notað í skartgripi. Raf er í raun ævaforn, storknuð trjákvoða. Það er appelsínugult og hálfgegnsætt og líkist einna helst harðri karamellu eða kandís. Prófið að hanna víkingaskartgripi úr heimatilbúnu rafi. Þið getið notað kandís, karmellur og leir – eða annað sem ykkur dettur í hug. Munið að bæði karlar og konur notuðu skartgripi á þessum tíma.

Umræður

  1. Kúrland náði yfir hluta þeirra landa sem núna heita Lettland og Litháen. Finnið þetta svæði á landakorti og skoðið hvaða leið víkingarnir gætu hafa siglt frá Noregi til Kúrlands. Hvað vitið þið um þessi lönd núna?
  2. Á bls. 25 er mynd af sjóræningjafána. Hvers vegna er hægt að líkja víkingunum við sjóræningja?
  3. Egill segir að það sé skammarlegt að ræna frá bóndanum án þess að láta hann vita. Hann snýr því við og brennir bæinn hans. Hvað finnst ykkur um þennan hugsunarhátt, að það eigi ekki að ræna án þess að láta vita af því? Hvað finnst ykkur um þessa aðferð við að láta bóndann vita?
  4. Hvernig haldið þið að þjóðir eins og Kúrar hafi hugsað um víkinga? Hvernig haldið þið að það hafi verið að búa á Kúrlandi á þessum tíma þegar víkingaflokkar herjuðu aftur og aftur á landið?
  5. Ímyndið ykkur að þið séuð börn á Kúrlandi og sjáið víkingaskip sigla í áttina að landinu. Hvað gerið þið?

7. kafli

Í orrustu með Aðalsteini sigursæla.

Efni

  1. Fyrir hvern fóru Egill og Þórólfur að berjast?
  2. Við hverja voru Englendingar að berjast?
  3. Hvað kölluðust sverð Egils og Þórólfs?
  4. Hvernig lauk ævi Þórólfs?
  5. Hvernig lauk orrustu Englendinga og Skota?

Sköpun

  1. Egill verður mikill vinur Aðalsteins Englakonungs. Haldið þið að íslenskur bóndi ætti ætti jafnauðvelt með að vingast við enska þjóðhöfðingjann núna? Skrifaðu stuttan leikþátt um íslenskan bónda sem bankar upp á í Buckingham höll og segjist vilja tala við kónginn eða drottninguna. Fáðu vini þína til að leika leikþáttinn með þér.
  2. Skoðaðu lýsingar á búnaði Egils og Þórólfs neðst á bls. 26 og efst á bls. 27. Teiknaðu mynd af bræðrunum með vopn sín.
  3. Á bls. 27 er sagt frá Valhöll, höll Óðins. Valhöll var eins og himnaríki fyrir víkinga. Þar var stöðugt barist og þar voru endalausar veislur en þetta tvennt fannst víkingunum skemmtilegast af öllu. Myndin á bls. 27 er eldgömul og sýnir hvernig listamaður á miðöldum hefur ímyndað sér Valhöll. En hvernig ímyndar þú þér hana? Teiknaðu Valhöll.

Umræður

  1. Finnið England og Skotland á landakorti. Finnst ykkur líklegt að þessar þjóðir færu í stríð núna? Eru einhverjar svona nágrannaþjóðir sem hafa háð stríð sem þið munið eftir eða vitið um?
  2. Getið þið ímyndað ykkur hvernig er að búa í landi sem er í stríði við nágrannaland sitt?
  3. Hver er núna drottning eða kóngur á Englandi? Haldið þið að starf þjóðhöfðingjans á Englandi sé öðruvísi núna en á víkingaöld? – Að hvaða leyti?

 

8. kafli

Gjafir Aðalsteins konungs.

Efni

  1. Hvernig bjó Egill um lík bróður síns?
  2. Hvað gerði Egill með augabrúnunum í höllinni hjá Aðalsteini konungi?
  3. Hvað rétti Aðalsteinn Agli á sverðsoddi?
  4. Hvað gaf Aðalsteinn Agli eftir að hann hafði gefið honum gullhringinn?
  5. Hvað fékk Egill í laun frá Aðalsteini fyrir drápuna sem hann orti um hann?

Sköpun

  1. Skoðaðu lýsinguna á Agli í hliðarefninu á bls. 28. Þetta er mjög nákvæm lýsing. Teiknaðu karlinn eftir þessari lýsingu.
  2. Skrifaðu sams konar lýsingu á þekktum manni, karli eða konu. Svo þarftu að lesa lýsinguna upp fyrir bekkinn. Þekkja bekkjarfélagarnir manninn?
  3. Egill fékk fín laun fyrir að yrkja drápu (kvæði) um Aðalstein konung. Drápur eru löng og virðuleg kvæði með viðlagi svo þær hafa kannski verið sungnar. Hvernig heldur þú að kvæðið hafi verið? Nú skaltu yrkja eina vísu sem gæti verið úr kvæðinu og skrifa hana á blað. Á að lesa vísuna, rappa eða syngja? Hvernig hljómar vísan?

Umræður

  1. Skoðaðu lýsinguna á hegðun Egils í höll Aðalsteins konungs. Hann horfir ekki upp, skýtur augunum sitt á hvað, dregur sverðið sitt hálfa leið úr slíðrinu en rekur það svo harkalega niður aftur. Hvað segir þessi lýsing um líðan Egils?
  2. Getið þið sýnt hvernig ykkur líður með svipbrigðum og án þess að segja neitt? Er alltaf hægt að sjá hvernig skapi fólk er í?
  3. Hvað er það sem kætir Egil mest ef miðað er við þennan kafla? Rifjið líka upp ferðina til Kúrlands. Sumir segja að víkingarnir hafi verið ótrúlega gráðugir í fé. Getur það passað?

9. kafli

Egill gerður útlægur í Noregi.

Efni

  1. Hvaða konu kvæntist Egill eftir að hann yfirgaf England?
  2. Hvers vegna sigldu Egill og Ásgerður til Noregs frá Íslandi?
  3. Við hvern ætlaði Egill að berjast á Gulaþingi?
  4. Hvað ráðlagði Arinbjörn Agli að gera þegar Eiríkur konungur bjóst til að berjast?
  5. Hvernig lauk viðskiptum Egils og Eiríks blóðöxi í þetta sinn?

Umræður

Hvernig haldið þið að Ásgerður hafi brugðist við þegar Egill kom til hennar og sagði henni að Þórólfur væri dáinn?

Ásgerður ólst upp hjá foreldrum Egils og Þórólfs þar til hún var 13 ára. Þá sigldi hún með bræðrunum til Noregs og hitti foreldra sína. Hvað finnst ykkur um að hún hafi gifst strákunum sem ólust upp með henni?

Egill þarf að flýja frá Gulaþingi því Eiríkur konungur blóðöxi ætlar að ráðast á hann. Egill tekur 30 menn með sér og konungurinn þarf að senda sex stór skip á eftir honum. Hvað segir þetta um styrk Egils?

Eiríkur konungur blóðöxi gerir Egil útlægan úr Noregi. Það þýðir að hann má ekki vera í landinu. Hver sem rekst á hann í landinu má drepa hann. Hvað finnst ykkur um þennan dóm konungsins? Er þetta betra eða verra en að varpa mönnum í fangelsi eins og nú er gert?

10. kafli

Níðstöngin.

Efni

  1. Hvernig fagnaði Berg-Önundur þegar hann hélt að Egill hefði flúið?
  2. Hvernig var Egill búinn (vopn og klæðnaður) þegar hann fór heim til Berg-Önundar?
  3. Hvernig plataði Egill Berg-Önund?
  4. Hvernig fór fyrir Rögnvaldi, syni Eiríks blóðaxar og Gunnhildar drottningar?
  5. Hvað vildi Egill fá fram með níðstönginni?

Sköpun

  1. Egill reisir Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu níðstöng. Þetta er löng stöng eða prik sem Egill festir hrosshaus á og stingur svo ofan í sprungu til að hún standi föst og sjáist vel. Á stöngina ristir Egill rúnir sem eiga að galdra Eirík og Gunnhildi burt frá Noregi. Búið til eftirlíkingu af níðstönginni úr því efni sem þið viljið.
  2. Hvað haldið þið að Egill hafi skrifað á stöngina? Notið rúnaletrið á bls. 21 til að skrifa galdraorð gegn Eiríki blóðöxi og Gunnhildi drottningu.
  3. Aflið ykkur upplýsinga um skógarbirni á netinu. Hvar er þá helst að finna núna? Teiknið skógarbjörn í raunverulegu umhverfi sínu og skrifið helstu upplýsingarnar inn á myndina.
  4. Leitið líka að upplýsingum um alþjóðlega bangsadaginn sem haldinn er 27. október á hverju ári. Teiknið leikfangabangsa. Bætið upplýsingum við myndina: Hvers vegna urðu svona grimmar skepnur að vinsælum leikföngum?

Umræður

  1. Egill verður hreinlega brjálaður af reiði í þessari ferð. Rifjaðið upp það sem sagt hefur verið um Kveld-Úlf, afa Egils, og Skalla-Grím, föður Egils. Getur verið að Egill sé berserkur eins og þeir?
  2. Rögnvaldur Eiríksson, sonur Eiríks og Gunnhildar, er bara 10 eða 11 ára þegar hann verður fyrir barðinu á reiði Egils. Hvað finnst ykkur um að víkingurinn ráðist á svona ungan strák og drepi hann?
  3. Hvernig haldið þið að Eiríkur blóðöxi og Gunnhildur hafi brugðist við þegar þau fréttu af dauða sonar síns?
  4. Strákarnir sem eru að gæta kinda fremst í kaflanum eru sennilega á sama aldri og Rögnvaldur eða 10-11 ára. Ímyndið ykkur vernig er að vera þessir strákar. Þeir eru einir úti að kvöldlagi að passa kindurnar fyrir óðum skógarbirni og hitta vopnaðan víking. Hvað haldið þið að strákarnir séu að hugs um og ræða um?

11. kafli

Silfur Skalla-Gríms.

Efni

  1. Hvað vildi Skalla-Grímur fá frá Agli?
  2. Hvað hafði Skalla-Grímur með sér þegar hann reið að heiman?
  3. Hvað halda menn að Skalla-Grímur hafi gert við silfrið sitt?
  4. Hvert var farið með lík Skalla-Gríms?
  5. Hvað var lagt í hauginn með Skalla-Grími?

Sköpun

  1. Lesið hliðarefni á bls. 34 þar sem fjallað er um keldur. Hvers vegna er erfitt að leita að hlutum sem sokkið hafa í keldu? Getið þið hugsað upp einhverja leið til að finna fjársjóð í keldu? Nú skuluð þið hanna ímyndað undratæki sem fundið getur fjársjóði. Þið þurfið að teikna tækið og skrifa skýringar inn á myndina og leiðbeiningar fyrir notendur.
  2. Hvar er Digranes þar sem Skalla-Grímur var heygður? Finnið staðinn á korti og upplýsingar um hann á netinu.
  3. Tilkynnt hefur verið að haldin verði samkeppni um minnismerki um Skalla-Grím. Minnismerkið á að vera stórt og áberandi og það á að standa á Digranesi. Þið takið þátt í samkeppninni og hannið minnismerki um karlinn. Búið minnismerkið til í smækkaðri gerð til að hægt sé að senda það í samkeppnina í þykjustunni. Þessi smækkaða gerð þarf að komast fyrir í skókassa.
  4. Það á líka að setja upp upplýsingaskilti um Skalla-Grím á Digranesi. Þar þarf að koma fram hver hann var og hvenær hann var uppi. Þar þarf líka að vera stutt frásögn af karlinum og mynd af honum. Skiltið þarf að vera litskrúðugt og áberandi – og hannað af ykkur.

 

Umræður

  1. Hvers vegna haldið þið að Egill hafi ekki viljað láta föður sinn fá silfrið, þrátt fyrir að Aðalsteinn konungur hafi sagt að Skalla-Grímur ætti að fá hluta af því?
  2. Hvað finnst ykkur um viðbrögð Skalla-Gríms sem felur silfrið sitt?

12. kafli

Höfuðlausn.

Efni

  1. Hver hrakti Eirík blóðöxi úr landi og tók við völdum í Noregi?
  2. Hvar herjuðu Eiríkur blóðöxi og Arinbjörn?
  3. Hvaða landsvæði á Englandi fékk Eiríkur og í hvaða bæ (borg) kom hann sér fyrir?
  4. Hverjir réðu ríkjum þar sem Egill kom að landi?
  5. Hvað vildi Gunnhildur láta gera við Egil?
  6. Hvað sagði Arinbjörn Agli að gera til að bjarga lífi sínu?
  7. Hvers vegna gekk Agli illa að yrkja kvæðið?
  8. Um hvað var kvæðið sem Egill orti?
  9. Hvernig brást Eiríkur blóðöxi við kvæðinu?
  10. Hvað gaf Arinbjörn Agli að skilnaði?

Sköpun

  1. Skrifið frétt um andlát Gunnhildar drottningar fyrir íslenskt víkingablað. Í fréttinni verður að vera stutt lýsing á drottningunni og eftirmæli um hana.
  2. Lýsið með teiknimyndasögu hvernig hamhleypan Gunnhildur drottning truflar Egil Skalla-Grímsson við að yrkja.
  3. Í borginni Jórvík, þar sem þessi kafli gerist, er æðislegt víkingasafn. Finnið safnið á netinu (borgin heitir York á ensku). Hvaða fornminjar hafa fundist í Jórvík sem tengjast víkingatímanum? Veljið einn grip, teiknið mynd af honum og skrifið upplýsingar um hann á íslensku.

Umræður

  1. Fuglinn sem sat við glugga Egils var hamhleypa, það merkir að einhver hafði breytt sér í fugl til að trufla hann. Hver haldið þið að hafi breytt sér í fuglinn?
  2. Þekkið þið fleiri dæmi um hamhleypur úr bókum eða bíómyndum?
  3. Lesið það sem stendur um Gunnhildi drottningu á bls. 36 og rifjið upp samskipti hennar við Egil. Hvernig manneskja er Gunnhildur?
  4. Getið þið sett ykkur í spor Gunnhildar? Er kannski skiljanlegt að hún sé svona reið út í Egil og þá hvers vegna?
  5. Af hverju kallast kvæðið sem Egill orti fyrir Eirík blóðöxi Höfuðlausn? Hvað merkir heiti kvæðisins?
  6. Veltið fyrir ykkur vináttu Egils og Arinbjarnar. Arinbjörn stendur alltaf með Agli, sama þótt hann sé að rífast við aðra vini hans. Hann bjargar oft lífi hans með ráðleggingum sínum. Hvaða máli skiptir að eiga svona vin?
  7. Egill og Arinbjörn gefa hvor öðrum mjög dýrar og fínar gjafir í lok þessa kafla. Egill gefur Arinbirni tvo gullhringa sem hann hafði fengið frá Aðalsteini konungi. Arinbjörn gefur Agli besta sverð í heimi, sverðið Dragvandil. Hver vegna haldið þið að þeir gefi svona fínar gjafir? Finnst ykkur nauðsynlegt að gefa vinum ykkar gjafir? Hvað skiptir mestu máli þegar maður velur gjöf handa vini sínum?

13. kafli

Hólmgöngur.

Efni

  1. Hver hafði eignað sér fé Ásgerðar eftir að Berg-Önundur dó?
  2. Hver vildi giftast systur Friðgeirs í Höð?
  3. Hvernig sáu menn að það kom berserksgangur á Ljót hinn bleika?
  4. Hver barðist fyrir Friðgeir í hólmgöngunni við Ljót?
  5. Hvaða vopn hafði Egill í hólmgöngunni við Ljót?
  6. Við hvern barðist Egill í hólmgöngunni á Gulaþingi?
  7. Hvað átti sigurvegari hólmgöngunnar að gera til að koma í veg fyrir hefndir?
  8. Hvers konar galdri beitti Atli gegn Agli?
  9. Hvernig lauk bardaga Egils og Atla?
  10. Hvað varð nú um eignir Ásgerðar?

Sköpun

  1. Sverðið Dragvandill sem Egill fékk frá Arinbirni er heimsins besta sverð til að drepa tröll með. Ef þið byggjuð í Tröllalandi, hvernig mynduð þið vara börnin ykkar við Dragvandli? Búið til viðvörunarskilti um sverðið fyrir íbúa Tröllalands.
  2. Andstæðingar Egils í þessum kafla eru Ljótur hinn bleiki og Atli hinn skammi. Á bls. 40 stendur hvað viðurnefni þeirra merkja. Teiknið þessa kappa og látið myndirnar endurspegla viðurnefnin.

Umræður

  1. Í upphafi kaflans er sagt að hveiti og hunang hafi verið um borð í skipinu sem Egill fékk frá Aðalsteini konungi. Hvers vegna var þetta dýrmætur varningur fyrir Íslendinga á víkingaöld? Þættu þetta merkilegar gjafir núna?
  2. Hákon Noregskonungur ólst upp hjá Aðalsteini Englandskonungi. Hvers vegna haldið þið að faðir Hákonar hafi látið hann í fóstur til Englands? Skipti það einhverju máli fyrir samband Noregs og Englands?
  3. Af hverju grætur systir Friðgeirs svona mikið í veislunni í Höð? Haldi þið að hún hafi viljað giftast Ljóti? Réð hún því sjálf hvort hún myndi giftast honum? Setjið ykkur í spor stúlkunnar.
  4. Á þessum tíma réðu karlmennirnir í fjölskyldunni hverjum konurnar giftust. Hvernig myndi ykkur lítast á slíkt fyrirkomulag? Gleymið ekki að í sumum löndum er það svona enn þá, stúlkur ráða því ekki hverjum þær giftast. Sums staðar ráða piltar því ekki heldur. Hvað finnst ykkur um það? Er hægt að breyta þessu?
  5. Lesið það sem sagt er um hólmgöngur í hliðarefninu á bls. 40. Á hvað minnir þetta ykkur? Getur verið að víkingarnir hafi litið á bardaga eins og íþróttakeppni?

14. kafli

Orrusta á Fríslandi.

Efni

  1. Hvernig lauk ævi Eiríks blóðaxar?
  2. Hvað gaf Arinbjörn Agli í jólaboðinu?
  3. Hvað gaf Arinbjörn Agli fyrir að hafa bjargað lífi Friðgeirs?
  4. Hvert fóru Egill og Arinbjörn í víking saman?
  5. Hvert fór Arinbjörn eftir bardagann við Frísi?

Sköpun

  1. Á bls. 45 er sagt frá bardaga Egils við Frísi. Lýsið þessum bardaga með teiknimyndasögu. Skoðið sérstaklega hvernig Egill eltir Frísina og stekkur eins og ofurhetja yfir dýkið.
  2. Lesið söguna um Harald gráfeld á bls. 45. Hvers vegna haldið þið að það hafi skipt máli að konungurinn vildi ganga í íslenskum gráfeldi? Hefur það eitthvað að gera með það hversu mikið seldist af feldum? Leikið samskipti víkinganna og konungsins þegar þeir reyna að selja honum feld.
  3. Gráfeldur er loðskinn eða pels. Núna eru pelsar mjög dýrar kápur. Búið til auglýsingu fyrir íslensku pelsasölumennina sem þeir hengja upp eftir að Haraldur konungur hefur keypt af þeim gráfeld.

Umræður

  1. Egils saga gerist áður en Íslendingar og Norðmenn gerðust kristnir. Samt er sagt frá jólaboði í þessum kafla. Finnið upplýsingar um heiðin jól á netinu. Hverju fögnuðu menn á jólunum áður en sagan af fæðingu Jesúbarnsins tengdist þessum tíma?
  2. Á bs. 44 eru upplýsingar um Frísi og Saxa. Hvar haldið þið að víkingarnir hafi fengið varninginn sem þeir seldu Frísum? Hvaðan komu feldirnir? Þrælarnir? Rafið?

15. kafli

Vermalandsför.

Efni

  1. Hvað hét maðurinn sem Egill fékk gistingu hjá á Vermalandi?
  2. Hvað gaf Ármóður Agli og mönnum hans að drekka?
  3. Hver kjaftaði frá og sagði Agli að til væri nóg af kjöti og öli?
  4. Hvað gerði Egilll við Ármóð þegar hann hafði drukkið öl?
  5. Hvað gerði Egill við Ármóð daginn eftir?
  6. Hvað hét maðurinn sem Egill fékk gistingu hjá í Eiðaskógi?
  7. Hvað fann Egill í rúmi veiku stúlkunnar?
  8. Hverja sendi Arnviður jarl á eftir Agli?
  9. Hvers konar brynju bjó Egill sér til fyrir bardagann við menn Arnviðar?
  10. Hvers vegna hafði dóttir Þorfinns veikst?

Sköpun

  1. Búið til leikþátt (skrifið, skiptið í hlutverk og leikið) um heimsókn Egils hjá Ármóði skegg. Hafið í huga þrjú mikilvæg hlutverk, Egil, Ármóð og dóttur Egils. Munið að Egill er grimmur víkingur og í fýlu yfir móttökunum. Dóttir Ármóðs er venjuleg stelpa sem er að leika sér á gólfinu þar til hún talar við Egil. Um Ármóð vitum við lítið, nema að hann er með skegg og að hann vill ekki gefa víkingnum öl þótt hann sé ríkur.
  2. Hvernig líður konu Ármóðs og dóttur þegar Egill ryðst inn og ætlar að drepa hann? Setjið ykkur í spor annað hvort konunnar eða dótturinnar og skrifið bestu vinkonu ykkar bréf um þetta.
  3. Rifjið upp allt sem fram hefur komið um rúnir, til dæmis um níðstöngina. Skoðið sérstaklega bls. 22, 33 og 48. Búið til upplýsingaefni um rúnir fyrir „Rúnavinafélag Íslands“. Upplýsingarnar eiga vera fyrir fólk sem veit ekkert hvað rúnir eru.
  4. Hvernig lítur Egill út fyrir bardagann við bræðurna sem báðir heita Úlfur? Teiknið mynd af honum með öll vopnin og steinhelluna í stað brynju.

Umræður

  1. Hvernig tekur Ármóður skegg á móti Agli? Skoðið þetta í samanburði við móttökurnar sem Egill fékk hjá Atleyjar-Bárði í 5. kafla. Af hverju haldið þið að Egill móðgist svona svakalega þegar hann fær bara skyr?
  2. Hvernig hefnir Egill sín á þeim sem gefa honum skyr?
  3. Hvernig mynduð þið taka á móti víkingum fyrst þið þekkið þessar sögur úr Eglu?
  4. Setjið ykkur í spor stelpunnar sem segir Agli að til sé betri matur. Hún er 10 eða 11 ára. Hvernig líður henni þegar hún talar við víkingana?
  5. Við vitum núna að Egill kann bæði að galdra með rúnum og nota rúnir til lækninga. Það er því augljóst að rúnir gátu menn notað bæði til góðs og ills. Skoðið hvernig Egill beitir rúnum til lækninga í þessum kafla. Hvernig haldið þið að þær hafi virkað? Er hægt að segja að eitthvað sé líkt með lækningu og galdri?
  6. Rúnir voru eitt helsta lækningatækið á víkingaöld. Hvað annað haldið þið að menn hafi getað notað til lækninga? Hvaða afleiðingar hafði það að ekki voru til menntaðir læknar eins og núna? Og ekki heldur lyf eða bóluefni?

16. kafli

Sonatorrek.

Efni

  1. Hvað hétu börn Egils og Ásgerðar?
  2. Hvaða sonur þeirra lést úr veikindum?
  3. Hvaða sonur þeirra drukknaði í Hvítá?
  4. Hvað gerði Egill þegar hann hafði lagt lík Böðvars í haug Skalla-Gríms?
  5. Hver kom til að reyna að hressa Egil við?
  6. Hvað plataði Þorgerður Egil til að borða?
  7. Hvað lagði Þorgerður til að þau gerðu?
  8. Hvað kallast kvæðið sem Egill orti um Gunnar og Böðvar?

Sköpun

  1. Klæðnaði Egils er nákvæmlega lýst þegar hann heygir Böðvar. Lýsingin er í hliðarefninu á bls. 51. Notið lýsinguna til að búa til mynd af Agli.
  2. Hvernig gæti eitt erindi úr Sonatorreki hljómað á nútíma íslensku? Yrkið eitt erindi og skrifið á blað. Þið ráðið hvort þið syngið það, lesið eða flytjið á annan hátt. Erindið þarf að vera 8 línur, þannig voru reglurnar. Þið ráðið hvort þið notið rím eða ekki.
  3. Skrifið og leikið samskipti Egils og Þorgerðar dóttur hans þegar hún platar hann til að hætta við að svelta sig til bana.

Umræður

  1. Skoðið hvað Egill gerir eftir að hann hefur lagt lík Böðvars í haug afa hans. Hvað segir þetta um líðan Egils?
  2. Þorgerður fer til Egils föður síns og þykist styðja hann í að svelta sig til dauða. Hvað finnst ykkur um aðferð hennar? Hugleiðið það sem stendur um sálfræðinginn Þorgerði í hliðarefninu á bls. 53.
  3. Hvernig mynduð þið koma fram við einhvern sem er svona niðurdreginn og dapur? – Hvernig mynduð þið vilja að komið væri fram við ykkur ef ykkur liði svona?
  4. Venjulega hefði Egill hefnt sín á þeim sem drepið hefðu vini hans eða ættingja. Núna getur hann ekki hefnt sín því Gunnar sonur hans veiktist en Böðvar sonur hans drukknaði. Skiptir þetta einhverju máli fyrir líðan hans?
  5. Af hverju haldið þið að Egill hressist við að yrkja kvæði um syni sína?

17. kafli

Síðustu ár Egils.

Efni

  1. Hvaða vinir Egils dóu í útlöndum?
  2. Hverjir réðu nú ríkjum í Noregi?
  3. Hvernig er Þorsteini Egilssyni lýst?
  4. Hvað tók Þorsteinn með sér til Alþingis?
  5. Hvert flutti Egill þegar Ásgerður lést?
  6. Hver var á ferð með Þorsteini þegar hann lenti í bardaga við Steinar?
  7. Hvað gerðu synir Þorsteins og Steinars meðan feður þeirra börðust?
  8. Hvað voru strákarnir gamlir?
  9. Hvernig lauk bardaga drengjanna?

Sköpun

  1. Ímyndið ykkur að þið séuð stödd á Alþingi þegar Egill Skalla-Grímsson kemur ríðandi til þingsins í konunglegum klæðum og með 80 þingmenn með sér. Hvernig verður ykkur við? Lýsið stemningunni á þinginu með frásögn, myndasögu eða teikningu.
  2. Búið til teiknimyndasögu þar sem strákarnir tveir sem berjast eru í aðalhlutverki. Munið að þetta er saga um miklar tilfinningar.
  3. Teiknið mynd af góðum vini ykkar og lýsið því með orðum hvers vegna hann eða hún er svona góður vinur.

Umræður

  1. Hvað er sagt um samskipti Egils og Þorsteins sonar hans í sögunni? Af hverju haldið þið að þeim hafi ekki þótt vænt um hvor annan?
  2. Hvað gerðist á Alþingi þegar Þorsteinn þurfti á hjálp að halda? Er endilega rétt sem stendur í sögunni að Agli hafi ekki þótt vænt um Þorstein?
  3. Hvað finnst ykkur um bardaga Þorsteins og Steinars? Skoðið aðdraganda bardagans, hefði verið hægt að leysa málin á annan hátt?
  4. Þorsteinn og Steinar reyna að hlífa sonum sínum með því að senda þá í burtu en það verður til þess að strákarnir geta barist einir og án afskipta fullorðinna. Var þetta rétt ráð sem feður þeirra gripu til? Hvað hefðu þeir átt að gera?
  5. Hvers vegna berjast strákarnir svona grimmilega? Af hverju nota þeir til dæmis vopn? Hvað hefðuð þið gert í þeirra sporum?
  6. Hvernig haldið þið að Þorsteini og Steinari líði þegar þeir komast að því að strákarnir þeirra hafa barist upp á líf og dauða? Haldið þið að þeir haldi áfram að berjast eftir þetta?
  7. Hvað er hægt að læra af þessari sögu um afleiðingar átaka? Eru það alltaf þeir sem eiga upphafið að átökum sem koma verst út úr þeim? Eru það alltaf þeir sem eiga í deilum sem láta lífið? Getið þið nefnt dæmi úr nútímanum um átök sem bitna á börnum?
  8. Hvers vegna fara börn að beita önnur börn ofbeldi? Bæði núna og á víkingaöld? Læra þau það af sjálfu sér eða af einhverjum öðrum? Og hvar læra þau þá að beita ofbeldi – hverjar eru fyrirmyndirnar?
  9. Þarf manni að vera illa við sama fólk og foreldrum manns er illa við? Getur maður verið vinur þess sem er óvinur pabba manns? Getur maður verið óvinur þess sem er vinur mömmu manns?
  10. Í gömlu víkingakvæði sem heitir Hávamál er vísa um vináttuna. Þar stendur að maður eigi að vera vinur vinar síns og vinur vinar vinar síns. Maður eigi hins vegar ekki að vera vinur vinar óvinar síns. Hvað finnst ykkur um þessar reglur? – Er farið eftir þessum reglum í Eglu?

Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin;
en óvinar
síns
skyli engi maður
vinar vinur vera.

18. kafli

Silfur Egils.

Efni

  1. Hvernig heilsaðist Agli í ellinni?
  2. Hvar bjó Egill í ellinni?
  3. Hvað langaði Egil að gera við silfrið sitt á Lögbergi?
  4. Hvað gerði Egill við þrælana sem fylgdu honum með silfrið?
  5. Hvað gerði Egill á endanum við silfrið?

Sköpun

  1. Silfur Egils hefur aldrei fundist og ekki heldur silfur Skalla-Gríms. Búið til fjársjóðskort fyrir þá sem ætla að leita að silfrinu, annað hvort silfri Egils eða silfri Skalla-Gríms. Kortið verður að sýna hvar á landinu silfrið var líklega falið.
  2. Ímyndið ykkur að fundist hafi bréf sem gamli karlinn Egill skrifaði rétt áður en hann dó. Þar segir hann hvers vegna hann ætlar að fela silfrið sitt. Skrifið þetta bréf.
  3. Ímyndið ykkur að silfur Egils hafi fundist. Skrifið frétt um það – þetta er auðvitað aðalfrétt fréttatímans í kvöld. Þið þurfið líka að lesa fréttina og taka viðtal við þann sem fann silfrið.

 

Umræður

  1. Hvernig finnst ykkur Egill vera sem gamall maður? Er hann jafnógnvekjandi og þegar hann var ungur víkingur? Hvernig koma vinnukonurnar til dæmis fram við hann?
  2. Hvers vegna vill Egill strá silfrinu sínu yfir Lögberg? Getur verið að hann sakni einhvers úr víkingalífinu?
  3. Rifjið upp söguna af silfri Skalla-Gríms í 11. kafla. Er eitthvað líkt með þessum sögum? Hvers vegna vilja feðgarnir fela silfrið sitt áður en þeir deyja?
  4. Deyr Egill hetjulega? Rökstyðjið svarið.

19. kafli

Eftirmáli.

Efni

  1. Hvar fundust beinin sem menn héldu að væru úr Agli Skalla-Grímssyni?
  2. Hvað var óvenjulegt við beinin?
  3. Hvernig var hauskúpan?
  4. Hver lét reisa kirkju að Borg?
  5. Hvað kallast ættin sem komin er frá Þorsteini Eglissyni?

Sköpun

  1. Lesið upphafslínur kaflans og reiknið út hvenær Egill lést.
  2. Teiknið mynd af þessum gamla karli sem á að birtast með fréttinni af andláti hans.
  3. Skrifið frétt um dauða Egils. Svona andlátsfréttum fylgir alltaf stutt lýsing á ævi og störfum þess sem dó.
  4. Lesið hliðarefnið á bls. 59, Semjið aprílgabb fyrir útvarpið um að silfur Egils hafi fundist.