Fjörverkefni

1. Nú á að kvikmynda Laxdælu í Hollywood. Þið fáið að velja hvaða frægu leikarar eiga að leika Kjartan, Bolla og Guðrúnu. Finnið myndir af þeim á netinu og búið til veggspjald fyrir myndina. Gleymið ekki að skálda upp nafn á myndina.

2. Hannið stiklu fyrir myndina og setjið inn á youtube eða aðra myndmiðlunarsíðu. Stiklan á auðvitað að lokka fólk til að sjá myndina. Hún má þess vegna ekki vera of löng, ekki lengri en 1 mínúta.

3. Það er vinsælt hjá fræga fólkinu að fara í sjónvarpsviðtal og lýsa lífi sínu, ástum og vandamálum. Nú skulið þið taka viðtal við valda persónu úr Laxdælu. Vinnið tvö og tvö saman, annað ykkar leikur spyrjandann og hitt persónuna. Þið þurfið að skrifa spurningarnar og ákveða um hvað verður rætt. Svörin verða líka að passa við söguna.

3. Laugin í Sælingsdal sem Guðrún, Kjartan og Bolli fóru oft í var lagfærð og opnuð á ný haustið 2009. Búið til útvarpsauglýsingu fyrir laugina og reynið að fá sem flesta ferðamenn til að baða sig í henni. Þið þurfið að vísa í Laxdælu í auglýsingunni.

4. Sögupersónur í vinsælum barnabókum verða stundum að leikfangapersónum eða dúkkum. Hannið leikföng uppúr Laxdælu. Veljið nokkrar persónur og lýsið því hvernig þær eiga að líta út og hvaða hlutir fylgja þeim (vopn, klæðnaður og svo framvegis).

5. Lýsið bardaga Kjartans og Bolla með tónlist. Þið getið annað hvort valið lag sem ykkur finnst passa við frásögnina eða samið nýtt.

6. Skrifið minningargrein um Kjartan, Bolla eða Guðrúnu. Skoðið minningargreinar í Mogganum til að átta ykkur á hvernig þetta er gert.