Heim 5 Tíminn 5 Hvenær voru sögurnar skrifaðar?

Hvenær voru sögurnar skrifaðar?

Íslendingasögurnar voru flestar skrifaðar á 13. og 14. öld, það er að segja tveimur til þremur öldum eftir að atburðirnir sem þær segja frá eiga að hafa gerst. Ekki er hægt að segja hver þeirra er elst en Egla er þó talin með þeim elstu, hún er sögð vera frá því um 1220. Það er flókið verk að meta aldur sagnanna eða handritanna sem geyma þær. Hver skrifari setti sitt mark á verkið svo það er vandasamt að finna elstu gerð hverrar sögu. Hún gæti líka verið löngu týnd. En það er þó hægt að komast nærri aldri handritanna með því að rannsaka skinnið, blekið, myndirnar, skriftina og auðvitað sögurnar sjálfar.