Þór

Þór var sterkastur allra ása og verndari guða og manna. Þór verndaði samfélag mannanna og þing þeirra en hann réð líka yfir himnunum. Þegar hann ferðaðist um á vagninum sínum urðu til þrumur og eldingar. Hann var kallaður þrumuguðinn en líka Öku-Þór og Ása-Þór. Vagninn hans var dreginn af tveimur geithöfrum sem kölluðust Tanngrisnir og Tanngnjóstur. Hafrarnir voru sannkallaðar töfraskepnur. Þegar Þór var á ferðalagi sauð hann hafrana í kvöldmatinn en á morgnana safnaði hann beinum þeirra saman og galdraði þá til lífs með hamrinum sínum. Hamarinn Mjölnir var merkasti gripur Þórs og máttugasta vopn hans í baráttunni við jötna. Aðrir merkir gripir í eigu Þórs voru megingjarðir, járnglófar og stafurinn gríðarvölur. Þór var sonur Óðins og konan hans hét Sif. Þór var einn allra vinsælasti ásinn á víkingaöld eins og sjá má á mörgum mannanöfnum sem tengjast orðinu Þór. Þá var einn dagur vikunnar, Þórsdagur, nefndur eftir honum. Sá dagur heitir núna fimmtudagur.