Hverjir voru víkingar?

Mörg íþróttafélög kenna sig við víkinga og vilja þannig tengja sig við kraft og dirfsku. Dæmi um það er Víkingur í Reykjavík, Ólafsvík og í Stavangri í Noregi og Minnesota Vikings í Bandaríkjunum.

Orðið víkingur merkti upphaflega sjóræningi og var notað um norræna karlmenn sem sigldu í ránsferðir. Víkingarnir sigldu frá Norðurlöndunum til að ræna og berjast á Bretlandseyjum, í löndunum við Eystrasalt og í strandhéruðum Norður-Evrópu. Þeir stunduðu líka sjórán, það er réðust á skip á siglingu og rændu öllu úr þeim – eða rændu jafnvel skipunum sjálfum. Víkingaskipin voru því oft hálfgerð fjársjóðsskip, hlaðin gulli, silfri, skartgripum, skrautmunum og vopnum. Síðar hefur orðið víkingur fengið víðari merkingu og er nú notað um norrænt fólk á víkingaöld.

Þess vegna getum við sagt að víkingarnir hafi ekki bara verið ræningjar, þeir voru líka bændur, handverksmenn, kaupmenn og síðast en ekki síst landkönnuðir.