Að fara í víking

Sumar söguhetjur Íslendingasagnanna fara í víking en það kallaðist að fara í víking þegar menn sigldu í ránsferðir til annarra landa. Heimildir frá öðrum löndum sýna að víkingarnir vöktu ótta því þeir voru herskáir, brenndu bæi, drápu fólk og rændu bæði fólki og fé. Þeir tóku til dæmis þræla á Bretlandseyjum og fluttu með sér yfir hafið, til Íslands og víðar. Margir unglingar voru hnepptir í þrældóm á þennan hátt, bæði stelpur og strákar. Margir víkinganna voru líka á unglingsaldri enda má líta á þá venju að fara í víking sem manndómsvígslu. Það merkir að strákar sigldu í víking til að sanna sig og sýna að þeir væru orðnir fullorðnir.