Kjartan Ólafsson

Kjartan kemst nálægt því að vera fullkomin hetja eins og þeim er lýst í Íslendingasögunum. Hann er stórhættulegur bardagamaður enda stór og sterkur eins og Egill Skalla-Grímsson afi hans. Hann er þó ekki ljótur eins og afi hans heldur áberandi fríður, með sítt ljóst og liðað hár sem líkist helst silki. Kjartan hefur ótal hæfileika, hann er til dæmis flinkur smiður og hörkuíþróttamaður og sérstaklega góður í sundi. Hann er glaðlyndur og gjafmildur og ákaflega vinsæll. Alvöru hetjur í Íslendingasögunum berjast upp á líf og dauða og falla með sæmd og það gerir Kjartan líka.