Guðrún Ósvífursdóttir

Guðrún Ósvífursdóttir er í raun aðalpersóna Laxdælu. Hún er mikill kvenkostur en það merkir að hún er glæsilegasta og eftirsóttasta stúlkan í sveitinni. Guðrún er bæði rík og fögur, hún er klár, kurteis og skemmtileg að ræða við en svolítið skapstór. Guðrún lendir í óvenju flóknum ástarmálum og menn berjast upp á líf og dauða vegna ástar á henni. Hún getur líka sjálf verið grimmlynd þegar hún hvetur bræður sína og syni til bardaga og hefnda. Guðrún giftist fjórum sinnum en tilfinningar hennar eru ein mesta ráðgáta Íslendingasagnanna. Þegar hún er spurð að því í sögulok hvern hún hafi elskað mest svarar hún: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“ Um þetta stutta svar hafa menn skrifað óteljandi ritgerðir.