Ættarsaga

Saga ættarinnar hefst á 9. öld þegar ættmóðirin Unnur (eða Auður) djúpúðga nemur land á Íslandi. Á þessum tíma er ekki algengt að konur ferðist mikið, hvað þá að þær eigi víkingaskip. Unnur er því mikil hetja og einn af þekktustu landnámsmönnum Íslands. Laxdæla hefst á sögu Unnar en með því vill höfundur sögunnar benda á hversu voldugir og virðulegir Laxdælir eru. Fjölskylda hennar var konungleg en maðurinn hennar hafði verið herkonungur eða víkingaforingi og sonur hennar varð konungur í Skotlandi.

Unnur nemur alla Breiðafjarðardali sem eru sögusvið Laxdælu. Sagan gerist þó líka í Noregi og á Írlandi. Við fylgjumst fyrst með Unni, síðan langömmubarni hennar, Höskuldi, þá sonum Höskuldar þeim Þorleiki og Ólafi pá, og loks Kjartani Ólafssyni og Bolla Þorleikssyni sem eru langalangalangömmubörn Unnar. Þeirra saga nær hámarki kringum árið 1000 og tengist kristnitökunni á Íslandi.