Þórólfur

Tveir Þórólfar koma við sögu í Eglu. Sá fyrri er sonur Kveld-Úlfs og því bróðir Skalla-Gríms, sá síðari er sonur Skalla-Gríms og bróðir Egils. Þórólfarnir eru mjög líkir, glæsilegir og laglegir menn og flinkir að berjast en deyja ungir í bardaga. Þórólfur yngri, sá sem er bróðir Egils, kemur mun meira við sögu. Hann er besti vinur Egils og sá sem Egill lítur mest upp til. Hann leyfir unglingnum Agli að sigla með sér til útlanda þegar hann er reiður út í pabba þeirra. Síðar fara Þórólfur og Egill saman til Englands til að spreyta sig í stríði. Þar fellur Þórólfur í bardaga fyrir Aðalstein Englakonung og tekur Egill dauða hans afskaplega nærri sér.