Hákon Aðalsteinsfóstri

Hákon Aðalsteinsfóstri eða Hákon góði var konungur í Noregi um miðja 10. öld. Hann kemur þó nokkuð við sögu í Íslendingasögunum, ekki síst í Eglu. Hákon var sonur Haralds konungs hárfagra og uppeldissonur Aðalsteins Englakonungs, eins og viðurnefnið sýnir. Hákon var aðeins um tvítugt þegar hann sneri heim til Noregs frá Englandi og hrakti bróður sinn, Eirík konung blóðöxi og Gunnhildi drottningu úr landi til að gerast sjálfur konungur. Hákon tengist persónum margra Íslendingasagna enda er hann við völd á aðalsögutíma þeirra. Höskuldur Dala-Kollsson í Laxdælu er til dæmis hirðmaður hans og fær dýrmætar gjafir frá konunginum. Hákon er vinur Egils Skalla-Grímssonar enda eiga þeir sameiginlega óvini, Eirík blóðöxi og Gunnhildi.