Gunnhildur drottning

Gunnhildur er drottning í Noregi og eiginkona Eiríks konungs blóðöxi. Hún er geisifögur og ákaflega voldug en grimmlynd og rammgöldrótt. Gunnhildur verður versti óvinur Egils Skalla-Grímssonar og nær næstum því að drepa hann með eitri og galdri. Egill hefnir sín og drepur son Gunnhildar og Eiríks, 10 eða 11 ára gamlan, og eftir það hatar Gunnhildur hann út af lífinu. Hún reynist hættulegasti andstæðingur Egils þótt hún beri ekki vopn eins og karlarnir sem hann berst við. Gunnhildur kemur víða við sögu í fornum bókmenntum og er alls staðar glæsileg og grimm. Í Heimskringlu kemur fram að hún flutti til Danmerkur eftir að Eiríkur blóðöxi féll og fjórir synir hennar með henni. Einn þeirra var Haraldur gráfeldur sem varð Noregskonungur á eftir Hákoni Aðalsteinsfóstra. Gunnhildur hafði viðurnefnið kóngamóðir.