Hvar gerast Íslendingasögurnar?

Íslendingasögurnar eru milli 40 og 50 og ef til vill voru þær fleiri á miðöldum. Sögusvið þeirra nær um allt Ísland og til víkingabyggða erlendis – til dæmis í Noregi og á Bretlandseyjum. Sumar sögur teygja sig víða um landið enda var fólk duglegt að ferðast á víkingaöld, bæði siglandi og ríðandi. Flestir bæir og þorp á Íslandi geta því tengt sig við einhverja Íslendingasögu. Flestar Íslendingasögurnar gerast á Vesturlandi en dæmi um það eru sögurnar Laxdæla, Egla og Eyrbyggja. Gísla saga Súrssonar gerist á Vestfjörðum. Hrafnkels saga Freysgoða gerist á Austurlandi. Grettis saga gerist á Norðurlandi en Njála gerist á Suðurlandi.