Njála í mjög stuttu máli

Njálu er þægilegast að skipta í tvennt, sögu Gunnars á Hlíðarenda og sögu Njáls á Bergþórshvoli. Margt hefur þó gerst þegar saga Gunnars hefst. Hann hefur til dæmis verið í víking erlendis og Hallgerður hefur verið gift tvisvar. Þau hittast á Alþingi, verða strax ástfangin og giftast þótt Njáll vari Gunnar við því að giftast henni. Hjónin á Hlíðarenda  lenda í ýmsum átökum. Hallgerður deilir við Bergþóru og þær láta drepa húskarla hvor annarrar. Hún lætur líka stela mat til að bjóða upp gestum Gunnars upp á. Þessu reiðist Gunnar og slær hana. Gunnar lendir upp frá þessu í illdeilum við menn í sveitinni sem enda með því að gerð er aðför að honum að nóttu til. Gunnar berst upp á líf og dauða og nær að verjast þar til bogastrengur hans slitnar. Hann biður þá Hallgerði að láta sig fá lokk úr hári sínu í streng en hún neitar og segist með því hefna sín fyrir kinnhestinn sem hún fékk. Gunnar berst samt áfram og fellur með sæmd efir að hafa drepið eða sært marga menn.

Síðari hluti Njálu, saga Njáls og fjölskyldu, hefst með hefnd Skarphéðins Njálssonar og Högna Gunnarssonar eftir Gunnar. Eftir það er fylgst með sonum Njáls sem lenda í átökum sem lýkur með bardaga á Markarfljóti þar sem Skarpéðinn drepur mann. Njáll tekur Höskuld, son mannsins, í fóstur til að koma í veg fyrir hefndir en synir hans fyllast afbrýðissemi þegar strákurinn verður uppáhald Njáls. Síðar láta þeir platast til að drepa Höskuld og þar með er líf þeirra í hættu. Kona Höskuldar fer fram á hefnd og á endanum er kveikt í Bergþórshvoli svo margir menn brenna inni, þar á meðal Njáll, Bergþóra, tveir synir þeirra og lítill sonarsonur. Síðasti hluti Njálu fjallar um hefndina eftir Njálsbrennu og þar er fylgst með Kára, fóstbróður Njálssona sem giftur er systur þeirra. Kári hefnir rækilega fyrir brennuna en sættist að lokum við brennu-Flosa með því að giftast Hildigunni frænku hans sem áður var gift Höskuldi.