Höfundur og aldur

Höfundur Njálu er óþekktur og það hefur ekki reynst nokkur leið að komast að því hver skrifaði söguna. Sagan er talin hafa verið skrifuð á síðari hluta 13. aldar, það er að segja nokkru síðar en Egla. Hátt í 60 handrit eru til af Njálu en fimm þeirra eru frá því um 1300. Eins og gefur að skilja voru öll handrit handskrifuð, hver skrifari setti mark sitt á söguna, bætti við athugasemdum, breytti lítillega orðalagi eða leiðrétti villur (eða bætti óvart við villum). Það eru því engin tvö handrit Njálu eins og þess vegna hefur reynst jafnmikil ráðgáta að finna „upprunalega“ gerð sögunnar eins og höfund hennar.