Sagan

Egil saga Skalla-Grímssonar eða Egla er ævisaga víkingsins, bóndans og skáldsins Egils Skalla-Grímssonar. Egla er spennandi og ævintýraleg saga af víkingum og bændum, konungum og drottningum, bardögum, einvígjum, göldrum og gersemum. Egill er ein grimmasta söguhetja Íslendingasagnanna og í Eglu eru því ótal bardagar. Hann er líka óvenju tilfinningaríkur auk þess sem hann er bæði sterkur og brögðóttur eins og ofurhetja. Egla er því á margan hátt óvenjuleg Íslendingasaga. Sagan er talin hafa verið skrifuð um 1220 og auðvitað veit enginn hver gerði það. Hún hefst í Noregi um það leyti sem Ísland fannst eða á seinni hluta 9. aldar og henni lýkur á Íslandi um 150 árum síðar. Sumar persónur hennar koma við sögu í öðrum Íslendingasögum og ef til vill byggjast þær á alvöru fólki, hver veit.