Skalla-Grímur

Grímur Úlfsson, öðru nafni Skalla-Grímur Kveld-Úlfsson, er faðir Egils. Grímur er mikill maður og sterkur, dökkur yfirlitum, ljótur og líkur föður sínum. Hann verður snemma sköllóttur sem skýrir viðurnefnið. Skalla-Grímur er einn af frægustu landnámsmönnum Íslands. Hann nemur land í gróðursælum firði á Vesturlandi, reisir þar bæ og nefnir hann Borg en fjörðinn Borgarfjörð. Þar stundar hann búskap, skipasmíði og járnsmíði. Skalla-Grímur er grimmur og skapstyggur og hamrammur eins og faðir hans. Þegar rennur á hann berserksgangur berst hann við alla sem verða á vegi hans, meira að segja son sinn.