Konur í Íslendingasögunum


Konur í Íslendingasögunum eru gjarnan skapmiklar og sjálfstæðar og reiðubúnar að ganga langt til að verja heiður fjölskyldu sinnar. Konur eru þó sjaldan í aðalhlutverki. Það er ekki skrýtið ef litið er til þess að sögurnar fjalla um „bændur sem berjast“ og konur gátu hvorki kallast bændur né borið vopn. Konur gegna þó veigamiklu hlutverki í mörgum Íslendingasögum og stýra því oft hvaða stefnu málin taka. Konurnar vilja blóðhefnd og beita ýmsum aðferðum til að hvetja karlmennina í kringum sig til hefnda. Þær varðveita blóðug föt og vopn til að minna á hinn látna og æsa menn með því upp til að drepa í hefndarskyni. Í Laxdælu eru konurnar til dæmis mun hefnigjarnari og grimmlyndari en karlarnir sem orðnir eru riddaralegir og prúðir.  Laxdæla er ein mesta kvennasagan af öllum Íslendingasögunum og hægt er að kalla Guðrúnu Ósvífursdóttur aðalpersónu sögunnar. Hún er vafalaust þekktasta kvenhetja Íslendingasagnanna ásamt Hallgerði langbrók úr Njálu. Guðrún og Hallgerður eiga það sameiginlegt að vera fallegar og skapstórar og segja má að þær ráði örlögum eiginmanna sinna. Konurnar sem mest er sagt frá eru ríkar og virðulegar en fátækari konur fá þó oft mikilvæg hlutverk, sérstaklega flökkukonurnar sem kjafta frá því sem er að gerast í sveitinni.