Karlar í Íslendingasögunum

Íslendingasögurnar fjalla um víkinga – eða bændur sem berjast og aðalpersónur þeirra eru því yfirleitt karlar. Karlarnir eru þó býsna ólíkir, sumir eru gamaldags víkingar, ruddalegir, skapstyggir og grimmir, blóðþyrstir og tröllslegir. Dæmi um þannig söguhetju eru Egill Skalla-Grímsson og Skalla-Grímur Kveld-Úlfsson faðir hans í Eglu. Aðrir eru glæsilegir, myndarlegir, kurteisir og jafnvel kristnir. Þannig söguhetjur sjáum við í Laxdælu þar sem bæði Kjartan Ólafsson og Bolli Þorleiksson eru líkari evrópskum riddurum en grimmlyndum víkingum.

Karlarnir sem eru í aðalhlutverkum í sögunum eiga það flestir sameiginlegt að vera ríkir, voldugir og vinsælir enda af góðum ættum sem var afar mikils virði á miðöldum. Margir eru goðar eða héraðshöfðingjar og sumir eru vinir konunga í útlöndum sem eykur mjög virðingu þeirra. Nokkrar söguhetjur glíma þó við vond örlög, eru eftirlýstar fyrir glæpi og þurfa að gerast útlagar eins og Gísli Súrsson í Gísla sögu og Grettir Ásmundarson í Grettis sögu. Allt eru þetta þó miklir kappar, flinkir bardagamenn, sterkir og hugrakkir. Fátækari og valdalausari karlar fá að vera í aukahlutverkum sem húskarlar og þrælar.

Margir frægustu kappar Íslendingasagnanna hljóta hetjuleg örlög. Þeir berjast fyrir lífi sínu, særast illa og falla að lokum. Þar má nefna Gunnar á Hlíðarenda í Njálu, Kjartan og Bolla í Laxdælu og Gísla Súrsson í Gísla sögu. Aðrir berjast af hörku en halda lífi eins og Kári í Njálu sem sleppur alltaf úr lífsháska því gæfan er honum hliðholl. Nokkrir karlar gegna veigamiklu hlutverki sem ráðgjafar eða spámenn þótt þeir sjáist sjaldan eða aldrei beita vopnum. Þar má nefna Njál Þorgeirsson í Njálu og Snorra goða og Gest Oddleifsson í Laxdælu (Snorri og Gestur koma reyndar við sögu í mörgum Íslendingasögum). Það sýnir að vitrir menn nutu virðingar ekki síður en bardagamenn.