Börn í Íslendingasögunum

Það eru ekki mörg börn í aðalhlutverki í Íslendingasögunum en þau koma þó víða við sögu. Sögurnar gefa því merkilega mynd af börnum á víkingaöld. Oftast er þá sagt frá börnum á aldrinum 10-12 ára en á þeim aldri voru krakkar farnir að fylgja foreldrum sínum til verka til að læra af þeim. Stelpurnar hjálpuðu mömmu sinni í eldhúsinu en strákarnir fóru með pabba sínum að sinna skepnunum – og til bardaga. Unglingar töldust fullorðnir þegar þeir voru 16 ára en krakkar sem voru bráðþroska gátu talist fullorðnir 12 ára. Ýmis dæmi eru um það í sögunum að svona ungir strákar þurfi að bera vopn og hefna. Að sama skapi þurfa ungar stúlkur að giftast þótt þær séu kannski bara 14 ára. Stelpur réðu nefnilega ekki sjálfar hverjum þær giftust, það voru feðurnir sem ákváðu það.  Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdælu var 15 ára þegar hún giftist í fyrsta sinn og það þótti ekki óvenjulegur giftingaraldur.

Í Laxdælu er Bolli litli bara þriggja ára þegar hann þarf að yfirgefa foreldra sína til að fara í fóstur til frænda síns. Þar kynnist hann jafnaldra sínum, Kjartani Ólafssyni. Í Eglu er heilmikið sagt frá bernsku Egils Skalla-Grímssonar enda yrkir hann sína fyrstu vísu þriggja ára og er orðinn grimmur víkingur aðeins sex ára gamall. Þar er líka átakanlega frásögn af tveimur 10-12 ára strákum sem berjast og drepa hvor annan. Í Njálu er eftirminnileg sagan af Þórði litla, ungum dreng sem velur að brenna inni með afa sínum og ömmu frekar en að sleppa úr brennunni á Bergþórshvoli.