Vísur

Í Íslendingasögunum eru margar vísur því að á víkingaöld þótti afar fínt að vera skáld. Konungar buðu skáldum að vera við hirð sína en slík skáld voru kölluð hirðskáld og kvæði þeirra dróttkvæði sem merkir hirðkvæði. Dróttkvæðin eru flókin og erfitt er að skilja þau því skáldin nota hálfgert dulmál. Maður þarf að þekkja skáldskaparhefðina og hina fornu ásatrú til að geta skilið svona kvæði. Maður þarf líka að hafa mjög góðan orðaforða því skáldin nota ótal orð yfir sama hlutinn.

Konungarnir launuðu skáldunum sínum vel og gáfu þeim dýrar gjafir. Mikilvægi kvæða sést vel í Eglu en þar bjargar Egill Skalla-Grímsson lífi sínu með því að yrkja kvæði sem kallast Höfuðlausn þegar hann er í varðhaldi hjá Eiríki konungi blóðöxi. Í kvæðinu lýsir hann konunginum sem mikilli bardagahetju. Kvæðið þykir afar merkilegt því það er fyrsta norræna kvæðið með rími í enda ljóðlínanna.