Hvað segja Íslendingasögurnar okkur?

Íslendingasögurnar gerast á 9. og 10. öld en þær voru skrifaðar á 13. og 14. öld. Allt þetta tímabil köllum við miðaldir. Þótt sögurnar séu ef til vill ekki sannar geta þær sagt okkur margt um samfélagið á miðöldum; um samskipti manna, fjölskyldulíf og búsetu, hlutverk karla og kvenna, stéttaskiptingu og þrælahald. Þær hjálpa okkur að skilja trú og siði víkinganna og hina hroðalegu hefndarskyldu sem leiddi til ótal bardaga. Þær gefa líka mikilvæga mynd af stórviðburðum á borð við landnámið og kristnitökuna. Loks má ekki gleyma að Íslendingasögurnar sýna starfshætti rithöfunda á miðöldum, hvernig bækur voru búnar til og hvernig afþreyingu fólk sótti í.